top of page

Anastasia Nikolaevna Romanova

Rússland hefur upplifað marga harmleiki í gegnum tíðina. Við höfum nú þegar fjallað um söguna á bakvið St. Basil dómkirkjuna en annar þekktur harmleikur er ráðgátan um Anastasiu.

Anastasia var yngsta dóttir rússneska keisarans Nicholasar II og konu hans, Alexöndru. Samtals áttu þau fjórar dætur og einn son. Anastasia var mjög glaðleg og vinaleg stelpa. Henni fannst gaman að leika sér og gat leikið sér klukkutímum saman við systkini sín eða einungis við sjálfa sig. Hún var hæfileikarík leikkona og gat auðveldlega hermt eftir fjölskyldumeðlimum sínum og fleirum. Hún fékk aldrei nóg af góðlátlegu gríni. Hún var mikill dýraunnandi, góðhjörtuð og gamansöm.

Daginn sem fyrri heimstyrjöldinni var lýst yfir, grét Anastasia hástöfum. Hluti herbergjanna í höllinni voru nýtt sem dvalarstaður fyrir særða hermenn en tvær eldri systur Anastasiu voru látnar vinna þar.

Anastasia og hin yngri systirin, Maria, voru álitnar of ungar til þess að taka við svo erfiðu starfi.

Anastasia og Maria voru gerðar að ,,verndörum‘‘ dvalarstaðsins í stað þess að vinna með eldri systrum sínum. Þær söfnuðu peningum fyrir lyfjum og eyddu tíma sínum í það að skemmta sjúklingunum. Þær spiluðu við þá, lásu fyrir þá og fleira. Þær aðstoðuðu sjúklingana m.a. við það að skrifa bréf, ef hendur þeirra voru slasaðar og kenndu slösuðu hermönnunum að lesa. Stelpurnar eyddu öllum tíma sem þær gátu með hermönnunum og þoldu ekki að yfirgefa þá til þess að sinna heimalærdómi eða öðrum skyldum.

Í febrúar 1917 þegar uppreisnin var í fullum blóma, fengu systkinin öll mislinga. Uppreisnargjörn herlið umkringdu höllina, og þar sem faðir barnanna var fjarverandi voru þau ein með móður sinni. Móðir þeirra kaus að segja börnunum ekki sannleikann um uppreisnina og því héldu börnin að saklausar her-æfingar væru í gangi. Móðir barnanna komst fljótt að því að faðir barnanna hafði afsalað sér sæti sínu sem keisari og öll fjölskyldan var stuttu seinna færð í nokkurs konar stofufangelsi. Seinna var fjölskyldan færð til Tobolsk, þar sem talið var að það færi betur um þau þar. Í apríl 1918 fóru Maria, Alexandra og Nicholas til Moskvu þar sem réttarhöld áttu að vera haldin yfir Nicholasi. Alexandra skrifaði oft bréf til barnanna sem urðu eftir í Tobolsk og hvatti þau til þess að fela gimsteina og skartgripi fjölskyldunnar vel. Systurnar tóku sig því til og saumuðu verðmætin í fötin sín. Stuttu seinna sameinaðist fjölskyldan aftur í Yekaterinburg. Fjölskyldan var undir stöðugu eftirtirliti og einangrunin hafði mikil áhrif á Anastasiu. Einn daginn fauk svo gífurlega í hana vegna eins af læstu og máluðu gluggunum. Hana langaði svo mikið að geta séð út og fá ferskt loft að hún sparkaði í hann svo hann brotnaði. Hermaður á verði kom auga á Anastasiu og skaut í áttina að henni. Skotið geigaði naumlega og hún reyndi slíkt aldrei aftur.

Aðfaranótt 17. júlí 1918 var fjölskyldan vakin og beðin um að fara niður í kjallara. Fjölskylduna grunaði ekkert. Þau voru beðin um að setjast í stóla sem höfðu verið bornir inn og enginn mótmælti. Stelpurnar höfðu tekið handtöskur sínar með og Anastasia hafði tekið með sér hundinn sinn, Jimmy.

Þegar fyrstu skotin riðu af er talið að Anastasia, Maria og önnur eldri systirin, Tatiana, hafi lifað af.

 

Gimsteinarnir sem þær höfðu saumað í fötin sín björguðu lífi þeirra. Hermennirnir þurftu að ljúka við verknaðinn með því að berja þær með byssunum sínum. Líkin voru vafin í lök og gerð tilbúin fyrir jarðsetningu. Áður en líkin voru grafin voru þau gerð óþekkjanleg með hnífum, sýru og byssuskeftum.

Árið 1991 einungis 70 árum eftir atburðinn voru fundnar leyfar af konungsfjölskyldunni á einungis eins metra dýpi. Mannfræðingar höfðu þó miklar efasemdir varðandi leyfar líkama Anastasiu. Vinstri hlið höfuðkúpunar var mikið brotin og það var nær ómögulegt að setja hana aftur saman. Niðurstöður rannsóknana voru allar mjög vafasamar. Vísindamenn reyndu að mæla hæð beinagrindarinnar í því skyni að fá áreiðanlegri niðurstöður en þær niðurstöður voru ekki heldur taldar markverðar.

Fjölskyldan var að lokum jörðuð árið 1998, en tíu árum síðar, árið 2007, voru leyfar ungrar stúlku og ungs drengs fundnar á Porosenkovsky enginu. Leyfarnar voru rannsakaðar og niðurstöðurnar sýndu að leyfarnar voru af Mariu og Aleksey (son og dóttur Nicholasar).

Það að Anastasia hafi ef til vill komist lífs af hefur verið ein stærsta ráðgáta 20. aldarinnar. Sögusagnir um að ein dóttir keisarans hafi sloppið og komist lífs af spruttu upp tafarlaust eftir að fjölskyldan hafði verið tekin af lífi. Í gegnum tíðina hafa birst um 30 ,,gervi Anastasiur‘‘ sem hafa gert tilraun til þess að græða á ráðgátunni um Anastasiu, en komið hefur í ljós með einföldum DNA-prófum að þessar konur eiga ekkert sameiginlegt með konungsfjölskyldunni.

bottom of page